Í fyrsta sinn í stjóratíð Klopp

Jürgen Klopp var niðurlútur í leikslok.
Jürgen Klopp var niðurlútur í leikslok. AFP

Liverpool tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu gegn Atalanta á Anfield í gær.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Atalanta sem var sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu og Liverpool komst einhvernvegin aldrei í takt við leikinn.

Fyrir leik gærkvöldsins var Liverpool í efsta sæti D-riðils með 9 stig eða fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðir riðlakeppninnar.

Liverpool hefur verið svo gott sem ósigrandi á Anfield í stjóratíð Jürgen Klopp sem tók við liðinu í október 2015 af Brendan Rodgers.

Tapið í gær var það stærsta á heimavelli Liverpool síðan Klopp tók við. Þá átti Liverpool ekki skot á markið og er það í fyrsta sinn sem það gerist síðan tölfræðifyrirtækið Opta hóf mælingar, tímabilið 2003-04.

Þrátt fyrir tapið er Liverpool áfram í þægilegri stöðu í D-riðli en liðið er með tveggja stiga forskot á Atalanta og Ajax sem eiga eftir að mætast þegar tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni.

mbl.is