Maradona vildi Eið Smára

Ásgeir Sigurvinsson lék úrslitaleiki í UEFA-bikarnum með Stuttgart gegn Maradona. …
Ásgeir Sigurvinsson lék úrslitaleiki í UEFA-bikarnum með Stuttgart gegn Maradona. Eiður Smári Guðjohnsen lagði skóna á hilluna árið 2016. mbl.is/Árni Sæberg

Þjóðarsorg ríkir í Argentínu eftir að Diego Maradona lést á heimili sínu í Tigres í Argentínu í gærdag.

Maradona lést af völdum hjartaáfalls en hann var sextugur að aldri þegar hann féll frá.

Arnór Guðjohnsen, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands, var mikill aðdáandi Maradona og mætti honum einu sinni á knattspyrnuvellinum.

„Þegar ég var nýkominn til Anderlecht í Belgíu árið 1983 spiluðum við boðsleik við Barcelona þegar ný stúka var vígð á vellinum okkar,“ sagði Arnór í samtali við Fréttablaðið.

„Maradona spilaði þá með Barcelona í þeim leik og það sást bersýnilega þegar maður var á sama velli og hann hversu einstakur leikmaður hann var.“

Þá hafði Maradona áhuga á því að fá Eið Smára Guðjohnson, son Arnórs, til liðs við sig þegar hann var knattspyrnustjóri Fujairah í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

„Ég hitti hann svo fyrir leik Íslands og Argentínu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi árið 2018. Þá spjallaði ég við hann í boðssal fyrir leikinn og það fór bara vel á með okkur.

Hann var kurteis og þægilegur í samskiptum sínum við mig en við rifjuðum upp þegar það stóð til að Maradona tæki við liði einhvers staðar á Arabíuskaganum og það voru þreifingar um að Eiður Smári myndi ljúka ferlinum þar undir hans stjórn.

Það var gaman að hitta hann þarna í Moskvu,“ sagði Arnór um kynni sín af honum utan vallar í samtali við Fréttablaðið.

Diego Armando Maradona þjálfað í sameinuðu arabísku furstadæmunum í tvö …
Diego Armando Maradona þjálfað í sameinuðu arabísku furstadæmunum í tvö ár. AFP
mbl.is