Sjúkrabíllinn var rúman hálftíma á leiðinni

Stærðarinnar veggmyndir af Diego Maradona í Buenos Aires, heimaborg hans.
Stærðarinnar veggmyndir af Diego Maradona í Buenos Aires, heimaborg hans. AFP

Matías Morla, lögfræðingur knattspyrnugoðsagnarinnar Diego Maradona, ætlar að krefjast þess að dauði Maradona verði rannsakaður til hlítar. Segir hann neyðarþjónustu í Buenos Aires hafa brugðist Maradona.

Maradona lést í gær á heimili sínu í Tigre í norðurhluta Buenos Aires í Argentínu eftir að hafa fengið hjartaáfall í svefni. Fyrir rúmum tveimur vikum hafði hann gengist undir skurðaðgerð til þess að láta fjarlægja blóðtappa úr heila. Þá hafði Maradona átt við ýmis önnur heilsufarsvandamál að stríða til margra ára.

Morla er ósáttur við að enginn úr heilbrigðisgeiranum hafi verið að fylgjast með ástandi Maradona síðasta hálfa sólarhring ævi hans. „Það er óútskýranlegt að í 12 klukkustundir hafi vinur minn enga aðstoð eða skoðun fengið frá aðilum sem eiga að sjá um það,“ sagði hann.

„Sjúkrabíllinn var rúman hálftíma á leiðinni, sem er einfaldlega glæpsamlegur fávitaskapur. Það má ekki bara ýta þessu til hliðar. Ég mun krefjast ítarlegrar rannsóknar á málinu,“ sagði Morla einnig.

mbl.is