Ekki á meðal bestu leikmanna heims

Neymar gekk til liðs við PSG frá Barcelona sumarið 2017.
Neymar gekk til liðs við PSG frá Barcelona sumarið 2017. AFP

Toni Freixa, forsetaframbjóðandi spænska íþróttafélagsins Barcelona, hefur engan áhuga á því að fá Neymar aftur til félagsins.

Brasilíski knattspyrnumaðurinn hefur verið sterklega orðaður við endurkomu til félagsins, undanfarin ár, en hann gekk til liðs við PSG í Frakklandi sumarið 2017 fyrir tæplega 200 milljónir punda.

Neymar, semer 28 ára gamall, lék með Barcelona í fjögur ár áður en hann hélt til Frakklands og varð tvívegis Spánarmeistari með liðinu, þrívegis bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari.

„Neymar er ekki einu sinni á topp 30 listanum yfir bestu knattspyrnumenn í heiminum í dag,“ sagði Freixa í samtali við Cadena sjónvarpsstöðina.

„Við erum Barcelona og við eigum ekki að þurfa að treysta á ákveðna leikmenn til þess að vinna bikara. 

Þetta snýst um liðið og ef ég verð forseti er útilokað að Neymar snúi aftur,“ bætti Freixa við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert