Maradona vildi fá smurningu og vera sýnilegur til eilífðar

Diego Maradona borinn til grafar í kvöld.
Diego Maradona borinn til grafar í kvöld. AFP

Diego Armando Maradona vildi að hann yrði smurður og hafður til sýnis eftir andlát sitt, að sögn lögmanns hans, en fjölskylda hans var ekki hrifin af þeirri hugmynd.

Fréttastofa Reuters fjallar um þessa óvenjulegu ósk knattspyrnustjörnunnar og segir að Maradona hafi tjáð vinum sínum fyrir skömmu að þegar hann dæi ætti hann að fá smurningu til að aðdáendur sínir gætu séð sig. Þetta er haft eftir blaðamanninum Martin Arevalo sem var náinn vinur Maradona.

„Þegar hugmyndin um að reisa styttu af honum kom fyrst fram svaraði hann: Nei, ég vil að ég verði smurður,“ sagði Arevalo við TyC Sports í Argentínu en Arevalo var einn fárra fréttamanna sem nutu fulls trausts Maradona.

Þetta  staðfesti Arevalo við Reuters og sagði að ósk Maradona hefði verið að vera til staðar til eilífðar.

Argentínumenn þekkja þetta því tvær aðrar af goðsögnum landsins, forsetinn Juan Peron og eiginkona hans Eva Peron, fengu bæði smurningu eftir andlát sitt.

Lögmaður Maradona, Matias Morla, var viðstaddur þegar knattspyrnusnillingurinn bar fram þessa ósk sína og lagði til að þetta yrði gert skriflegt. Það hefði verið gert 13. október, samkvæmt argentínskum fjölmiðlum.

Fjölskylda Maradona var ekki samþykk þessu og útför hans var haldin í kvöld og hann jarðsettur við hlið foreldra sinna í kirkjugarði í útjaðri Buenos Aires.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert