Minntust Maradona á fallegan hátt

Leikmenn minntust Diego Maradona fyrir leik Napoli og Rijeka í …
Leikmenn minntust Diego Maradona fyrir leik Napoli og Rijeka í gær. AFP

Leikmenn ítalska knattspyrnufélagsins Napoli heiðruðu minningu Diegos Maradona þegar liðið fékk Rijeka í heimsókn í Evrópudeildinni í gær.

Leikurinn fór fram á San Paolo-leikvanginum í Napolí en honum lauk með 2:0-sigri ítalska liðsins þar sem þeir Matteo Politano og Hirving Lozano skoruðu mörk Napoli.

Leikmenn ítalska liðsins gengu inn á völlinn í treyjum merktum Maradona en argentínska knattspyrnugoðsögnin lést á heimili sínu í Buenos Aires á miðvikudaginn síðasta.

Maradona gerði garðinn frægan með Napoli á árunum 1984 til ársins 1991 en hann varð tvívegis Ítalíumeistari með liðinu, einu sinni bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari.

Maradona var sextugur þegar hann lést en hann er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert