Tekur á sig launalækkun

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Barcelona.
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Barcelona. AFP

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Barcelona í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu karla, hefur ákveðið að taka á sig launalækkun. Þjálfarateymi Koeman hefur ákveðið að gera slíkt hið sama.

Spænska íþróttablaðið Mundo Deportivo greinir frá því að ástæðan fyrir þessari ákvörðun Koeman og þjálfarateymis hans sé sú að Barcelona eigi í gífurlegum fjárhagserfiðleikum, sem séu fyrst og fremst komnir til vegna kórónuveirufaraldursins.

Koeman hyggst hvetja alla leikmenn liðsins til þess að taka á sig launalækkun. Nú þegar hafa Gerard Piqué og Frenkie de Jong samþykkt að taka á sig 30 prósent launalækkun en aðrir leikmenn hafa ekki tekið ákvörðun um það ennþá.

Samkvæmt frétt Mundo Deportivo verður Barcelona að minnka launakostnað um að minnsta kosti 170 milljónir punda til þess að halda sjó.

mbl.is