Bayern nýtti sér óvænt tap Dortmund

Douglas Costa skoraði þriðja mark Bayern.
Douglas Costa skoraði þriðja mark Bayern. AFP

Bayern München er komið með tveggja stiga forskot á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta eftir leiki dagsins. Bayern vann 3:1-útisigur á Stuttgart en Borussia Dortmund tapaði á sama tíma óvænt fyrir Köln á heimavelli, 1:2.

Stuttgart byrjaði betur gegn Bayern og Tanguy Coulibaly skoraði fyrsta markið á 20. mínútu. Bayern svaraði af krafti og Kingsley Coman jafnaði á 38. mínútu áður en Robert Lewandowski kom meisturunum yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Douglas Costa gulltryggði 3:1-sigur með marki á 87. mínútu.

Ellyes Skhiri var hetja Köln í sigrinum á Dortmund en hann skoraði bæði mörk liðsins í 2:1-sigri. Kom hann Köln í 2:0 á 60. mínútu áður en Thorgan Hazard minnkaði muninn á 74. mínútu og þar við sat. Sigurinn var sá fyrsti hjá Köln á leiktíðinni.

Þá vann Leipzig 2:1-heimasigur á Bielefeld. Angelino og Christopher Nkunku skoruðu mörk Leipzig áður en Fabian Klos minnkaði muninn á 75. mínútu.

Bayern er með 22 stig í toppsætinu, Leipzig í öðru sæti með 20 stig og Dortmund og Leverkusen koma þar á eftir með 18 stig.

Erling Braut Haaland og félagar í Dortmund áttu ekki góðan …
Erling Braut Haaland og félagar í Dortmund áttu ekki góðan dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert