Misstu af meistaratitilinum

Willum Þór Willumsson í leik með BATE í ágúst.
Willum Þór Willumsson í leik með BATE í ágúst. Ljósmynd/BATE Borisov

Shakhtyor er hvítrússneskur meistari í knattspyrnu eftir mikla dramatík í lokaumferð deildarinnar í dag.

Willum Þór Willumsson og liðsfélagar hans í BATE voru með eins stigs forskot á Shakhtyor fyrir lokaumferðina á toppi deildarinnar.

BATE gerði hins vegar markalaust jafntefli gegn Dinamo Minsk á útivelli á meðan Shakhtyor vann 4:2-heimasigur gegn Mink.

Shakhtyor fór því upp fyrir BATE að stigum og endaði með 59 stig en BATE sat eftir með sárt ennið með 58 stig í öðru sæti deildarinnar.

Willum Þór sat allan tímann á varamannabekk BATE en hann gekk til liðs við hvítrússneska liðið frá Breiðabliki í febrúar 2019.

Þetta er annað árið í röð sem BATE hafnar í öðru sæti deildarinnar eftir að hafa unnið deildina þrettán ár í röð, frá 2006 til ársins 2018.

mbl.is