Lést úr taugasjúkdómi

Papa Bouba Diop lést í dag.
Papa Bouba Diop lést í dag. Ljósmynd/@Pompey

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Papa Bouba Diop frá Senegal lést í dag, 42 ára að aldri.

Í fréttatilkynningu frá Fulham og Lens, hans fyrrverandi félögum, kemur fram að leikmaðurinn hafi látist eftir langvarandi veikindi.

Mirror greinir frá því að leikmaðurinn hafi lengi glímt við Charcot-Marie-Tooth-taugasjúkdóminn.

Diop gerði garðinn frægan með Fulham og Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni en hann lék einnig með West Ham og Birmingham á Englandi.

Hann varð enskur bikarmeistari með Portsmouth árið 2008, þá samherji Hermanns Hreiðarssonar, varð grískur bikarmeistari með AEK Aþenu árið 2011 og svissneskur meistari með Grasshopper í Sviss árið 2001.

Diop lagði skóna á hilluna árið 2013 en hann lék 63 landsleiki fyrir Senegal frá 2001 til 2008 þar sem hann skoraði ellefu mörk. Hann átti drjúgan þátt í óvæntri framgöngu senegalska liðsins á HM 2002, þar sem hann skoraði sigurmarkið í óvæntum sigri á fráfarandi heimsmeisturum Frakka í upphafsleik keppninnar og fór með liðinu í átta liða úrslit.

mbl.is