Ítalía getur farið upp fyrir Ísland í febrúar

Barbara Bonansea, leikmaður ítalska landsliðsins á HM kvenna á síðasta …
Barbara Bonansea, leikmaður ítalska landsliðsins á HM kvenna á síðasta ári. AFP

Danmörk og Ítalía gerðu markalaust jafntefli í B-riðli undankeppni EM kvenna í knattspyrnu í Danmörku í dag. 

Úrslitin þýða að Ítalía getur komist beint á EM þegar liðið spilar sinn síðasta leik í undankeppninni gegn Ísrael í febrúar á næsta ári.

Með 7:0 sigri í þeim leik færi liðið upp fyrir það íslenska sem enn bíður þess sem verða vill en fleiri leikir í dag og í kvöld hafa áhrif á stöðu Íslands. 

Danir unnu B-riðilinn og höfðu þegar tryggt sér sæti á EM. Ítalir höfnuðu í öðru sæti og urðu að fá stig í Viborg í dag til að eiga möguleika á að vera eitt þeirra þriggja liða sem fara beint á EM með bestan árangur í öðru sæti.

Skakkaföll voru í danska liðinu í dag því liðið var án tveggja heimsklassaleikmanna. Nadia Nadim og Simo­ne Boye greindust með kórónuveiruna í vikunni.

Íslenska liðið þarf að bíða lengur fram á kvöldið eftir því hvort það fái EM-sætið núna en það getur ráðist af úrslitum í leik Austurríkis og Serbíu, sem nú stendur yfir, og leik Belgíu og Sviss sem hefst klukkan 19. Þá geta úrslitin í leik Skota og Finna sem hefst kl. 19.30 einnig haft áhrif á baráttuna um sætin þrjú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert