Áttunda mark Viðars og harður Evrópuslagur

Viðar Örn Kjartansson hefur verið drjúgur fyrir Vålerenga.
Viðar Örn Kjartansson hefur verið drjúgur fyrir Vålerenga. Ljósmynd/Vålerenga

Viðar Örn Kjartansson landsliðsmaður í knattspyrnu skoraði mark Vålerenga í kvöld þegar Óslóarliðið gerði jafntefli við Stabæk á útivelli, 1:1, í norsku úrvalsdeildinni.

Hann kom Vålerenga yfir strax á 9. mínútu en Stabæk náði að jafna metin um miðjan síðari hálfleik.

Þetta er áttunda mark Viðars í ellefu leikjum frá því hann kom til Vålerenga í haust. Hann og Matthías Vilhjálmsson voru báðir í liði Vålerenga, Viðar lék allan leikinn en Matthías fyrstu 67 mínúturnar.

Vålerenga er áfram í þriðja sætinu nú með 48 stig, og er í harðri baráttu um Evrópusæti en liðið á nú þrjá leiki eftir. Rosenborg er með 45 stig og á fjóra leiki eftir, Kristiansund er með 44 stig og á þrjá leiki eftir en Odd er með 42 leiki og á enn fimm leiki eftir.

mbl.is