PSG refsaði United grimmilega

Neymar skoraði tvívegis fyrir PSG þegar liðið heimsótti Manchester United í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu á Old Trafford í Manchester í kvöld.

Leiknum lauk með 3:1-sigri PSG en leikmenn United fengu nokkur frábær tækifæri til þess að komast yfir í stöðunni 1:1. 

Neymar kom PSG yfir strax á 6. mínútu en Kylian Mbappé átti þá fast skot utan teigs. Boltinn fór af varnarmönnum United og frákastið datt fyrir Neymar sem skoraði með hnitmiðuðu skoti, utarlega í teignum, fram hjá David de Gea í marki United.

Marcus Rashford jafnaði metin fyrir Manchester United á 32. mínútu eftir laglega sókn. Anthony Martial átti þá fast skot að marki sem Keylor Navas varði vel.

Aaron Wan-Bissaka var fyrstur í boltann, renndi honum fyrir markið á Marcus Rashford, sem átti skot sem fór af Danilo og þaðan í netið.

Anthony Martial fékk sannkallað dauðafæri til þess að koma United yfir strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Marcus Rashford sendi boltann á hann. Martial var einn fyrir opnu marki en skotið fór hátt yfir markið.

Marquinhos var fljótur að refsa United og á 69. mínútu skoraði hann annað mark PSG þegar boltinn barst til hans í vítateig United eftir hornspyrnu. Brassinn var fljótur að átta sig og skoraði af stuttu færi.

Skömmu síðar fékk Fred að líta sitt annað gula spjald í liði United og þar með rautt og leikmenn United því einum manni færri það sem eftir lifði leiks.

United menn freistuðu þess að jafna metin og færðu leikmenn sína framar á völlinn.

Það var svo Neymar sem innsiglaði sigur PSG með marki eftir skyndisókn í uppbótartíma og þar við sat.

Manchester United, PSG og RB Leipzig eru öll með 9 stig í efstu sætum riðilsins og því ljóst að úrslitin í H-riðli munu ráðast í lokaumferðini.

United heimsækir RB Leipzig í lokaumferðinni á meðan PSG fær Istanbul Basaksehir í heimsókn.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. Utd 1:3 PSG opna loka
90. mín. Aaron Wan-Bissaka (Man. Utd) fer af velli
mbl.is