Arsenal ekki í vandræðum með Vínarbúa

Willian tekur hornspyrnu í leiknum í kvöld.
Willian tekur hornspyrnu í leiknum í kvöld. AFP

Arsenal vann öruggan sigur 4:1 sigur gegn Rapid Vín í B-riðli Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld. Rúnar Alex Rúnarsson lék allan leikinn í marki Arsenal.

Arsenal hóf leikinn af miklum krafti og skoraði Alexandre Lacazette strax á 10. mínútu. Þá fékk hann boltann langt fyrir utan teig og hamraði honum beint á markið. Richard Strebinger í marki Rapid Vínar misreiknaði flugið á boltanum og náði ekki að verja. Staðan því 1:0.

Aðeins átta mínútum síðar tvöfaldaði Arsenal forskot sitt. Þá tók Reiss Nelson hornspyrnu frá vinstri og fann þar Pablo Marí, sem skallaði boltann glæsilega í fjærhornið, stöngin inn.

Þriðja mark leiksins kom svo undir lok fyrri hálfleiks, á 44. mínútu. Arsenal geystist í hraða sókn þar sem Nicolas Pépé var kominn í góða stöðu utarlega í teignum. Hann lagði boltann á Nelson sem var óeigingjarn og lagði boltann á Nketiah sem skaut að marki, Strebinger varði, en Nketiah náði frákastinu og skallaði boltann í netið.

Í upphafi síðari hálfleiks mættu liðsmenn Rapid Vínar öllu áræðnari til leiks. Á 47. mínútu fékk Kelvin Arase tvö dauðafæri, í bæði skiptin varði Sead Kolasinac á línu en boltinn barst að lokum til Koya Kitagawa, sem kom boltanum í netið, 3:1.

Eftir þetta tók Arsenal aftur öll völd á vellinum en náðu þó aðeins að bæta við einu marki til viðbótar. Það skoraði Emile Smith-Rowe af stuttu færi á 66. mínútu eftir góða sókn, 4:1. Hafði hann komið inn á sem varamaður þremur mínútum áður.

Arsenal er þar með búið að vinna riðilinn og er með fullt hús stiga, 15 stig eftir fimm leiki.

Liðsmenn Arsenal fagna marki Emile Smith-Rowe í kvöld.
Liðsmenn Arsenal fagna marki Emile Smith-Rowe í kvöld. AFP
Alexandre Lacazette fagnar marki sínu í kvöld.
Alexandre Lacazette fagnar marki sínu í kvöld. AFP
Arsenal 4:1 Rapid Vín opna loka
94. mín. Leik lokið Þá er búið að flauta til leiksloka. Öruggur 4:1 sigur Arsenal staðreynd.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert