Fyrsta konan í sögu Meistaradeildarinnar

Stéphanie Frappart í leiknum sögufræga.
Stéphanie Frappart í leiknum sögufræga. AFP

Franski knattspyrnudómarinn Stéphanie Frappart braut blað í sögu Meistaradeildar karla í vikunni þegar hún varð fyrsta konan til þess að dæma leik í keppninni.

Frappart dæmdi leik Juventus og Dynamo Kiev í G-riðli keppninnar á Ítalíu en leiknum lauk með 3:0-sigri Juventus sem er komið áfram í sextán liða úrslit keppninnar.

Frappart, sem er einungis 36 ára gömul, dæmdi meðal annars úrslitaleik Liverpool og Chelsea í Meistarakeppni UEFA í Istanbúl í Tyrklandi 14. ágúst 2019 en Liverpool hafði betur eftir vítakeppni.

Þá dæmdi hún úrslitaleik HM kvenna í Frakklandi á síðasta ári þar sem Bandaríkin unnu 2:0-sigur gegn Hollandi í úrsltaleik í París.

Þá varð hún fyrsta konan til þess að dæma í frönsku 1. deildinni 28. apríl 2019 þegar hún dæmdi leik Amiens og Strasbourg.

Frappart dæmdi leik Svíþjóðar og Íslands í undankeppni EM, 27. október í Gautaborg, en leiknum lauk með 2:0-sigri sænska liðsins.

mbl.is