Búin að skrifa undir hjá AC Milan

Guðný Árnadóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Guðný Árnadóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Guðný Árnadóttir er gengin til liðs við ítalska stórliðið AC Milan en þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag. Hún skrifar undir tveggja og hálfs árs samning við ítalska félagið.

Guðný mun hins vegar ekki spila með AC Milan á yfirstandandi leiktíð heldur hefur hún verið lánuð til A-deildarfélags Napoli.

Napoli er í tólfta og neðsta sæti ítölsku A-deildarinnar með eitt stig eftir átta umferðir en Milan er í öðru sæti deildarinnar með 21 stig, þremur stigum minna en topplið Juventus.

Guðný, sem er einungis tvítug að aldri, kemur til félagsins frá Val þar sem hún hefur leikið frá árinu 2019 en hún varð Íslandsmeistari með liðinu tímabilið 2019.

Miðvörðurinn öflugi er uppalin hjá FH í Hafnarfirði og á að baki 83 leiki í efstu deild með FH og Val þar sem hún hefur skorað sex mörk. Þá á hún að baki átta A-landsleiki fyrir Ísland.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, liðsfélagi Guðnýjar í íslenska landsliðinu, lék sem lánskona hjá AC Milan frá Breiðabliki síðasta vetur og stóð sig mjög vel áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.

mbl.is