Knattspyrnukonur öðlast rétt til fæðingarorlofs

Bandaríska knattspyrnukonan Alex Morgan sneri nýlega aftur á völlinn eftir …
Bandaríska knattspyrnukonan Alex Morgan sneri nýlega aftur á völlinn eftir að hafa eignast barn. AFP

FIFA hefur samþykkt nýjar reglur sem tryggja réttindi knattspyrnukvenna til þess að taka allt að 14 vikur í fæðingarorlof og að lið leikmanna borgi þeim að minnsta kosti tvo þriðju af launum þeirra á því tímabili.

Af vikunum 14 eru að minnsta kosti 8 vikur sem leikmenn geta tekið eftir fæðingu barns.

Lið verða skylduð til þess að hjálpa leikmönnum að koma sér aftur af stað við endurkomu og að tryggja þeim læknisþjónustu. Liðin geta þó fengið nýjan leikmann til þess að dekka vikurnar 14.

Lið mega auk þess ekki segja upp samningi leikmanna vegna þungana. Verði þessi regla brotin þurfa liðin að borga leikmanni bætur, auk þess sem lið mega eiga von á frekari aðgerðum, þar á meðal bönnum og/eða sektum.

Reglurnar taka þegar gildi og ætlast FIFA til þess að þeim verði framfylgt um allan heim.

Gianni Infantino, forseti FIFA, sagði þessar reglur vera mikilvægt skref þegar kæmi að því auka vegsemd kvennaknattspyrnu. „Ef okkur er alvara með að auka veg og virðingu kvennaboltans verðum við að skoða alla svona hluti.“

„Knattspyrnukonur verða að búa við stöðugleika á ferlum sínum og ef leikmenn taka fæðingarorlof ættu þeir ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvenær þeir eru reiðubúnir að spila á ný,“ sagði Infantino einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert