Sætir rannsókn vegna prófs Suárez

Fabio Paratici íþróttastjóri Juventus.
Fabio Paratici íþróttastjóri Juventus. AFP

Fabio Paratici, íþróttastjóri Juventus, sætir nú rannsókn vegna gruns um að hann hafi hjálpað knattspyrnumanninum Luis Suárez að svindla á tungumálaprófi.

Allt útlit var fyrir að Suárez væri á leiðinni til ítölsku meistaranna í haust en félagsskiptin duttu upp fyrir á síðustu stundu og hann endaði á að semja við Atlético Madrid á Spáni.

Þegar Suárez virtist vera á leiðinni til Juventus tók hann ítölskupróf með það fyrir augum að flýta fyrir möguleika sínum á að fá ítalskan ríkisborgararétt.

Saksóknarar á Ítalíu fullyrða að Suárez hafi fengið að vita innihald prófsins fyrirfram og niðurstaða þess hafi verið ákveðin fyrirfram.

Segja þeir að Paratici hafi átt þar hlut að máli og logið til um málavöxtu. Einnig krefjast saksóknarar þess að fjórir háskólastarfsmenn sem fóru með umsjón prófsins verði settir í átta mánaða bann.

Forsvarsmenn Juventus hafa lýst yfir fullum stuðningi við Paratici og segja hann ekki hafa gert neitt rangt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert