Þjálfari Alberts rekinn

Arne Slot hefur verið látinn taka pokann sinn hjá AZ …
Arne Slot hefur verið látinn taka pokann sinn hjá AZ Alkmaar. AFP

Hollenska knattspyrnuliðið AZ Alkmaar hefur sagt þjálfara sínum, Arne Slot, upp störfum. Ástæðan fyrir því eru samningaviðræður hans við Feyenoord, sem leikur líkt og AZ í hollensku úrvalsdeildinni.

AZ er í 7. sæti hollensku deildarinnar með leik til góða og hefur ekki tapað leik. Auk þess á liðið góða möguleika á að komast í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar, þar sem það freistar þess að skáka Napoli eða Real Sociedad í F-riðlinum.

Slot hefur átt í viðræðum við Feyenoord um að taka við stjórnartaumunum þar á næsta tímabili. Lét hann forsvarsmenn AZ ekki vita af þessum viðræðum og hefur því verið látinn taka pokann sinn.

Albert Guðmundsson leikur sem kunnugt er með AZ og hefur gengið afar vel á tímabilinu, þar sem hann hefur skorað sjö mörk og lagt upp önnur tvö í 14 leikjum í öllum keppnum.

mbl.is