Magni næsti aðstoðarþjálfari AIK?

Magni Fannberg þróunarstjóri AIK
Magni Fannberg þróunarstjóri AIK Ljósmynd/AIK

Magni Fannberg gæti tekið við starfi aðstoðarþjálfara sænska knattspyrnuliðsins AIK frá Stokkhólmi fyrir næsta keppnistímabil, samkvæmt frétt sænska blaðsins Expressen í dag.

Expressen segir að samkvæmt sínum heimildum sé núverandi aðstoðarþjálfari AIK, Patric Jildefalk, líklegastur til að taka við liði Jönköping Södra, sem mistókst að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni í dag þegar það tapaði fyrir Kalmar í umspili.

Magni gegnir starfi þróunarstjóra hjá AIK en hann tók við því 1. júlí 2019 eftir að hafa verið í samskonar starfi hjá norska félaginu Brann. Áður var hann lengi hjá Brommapojkarna í Stokkhólmi, um tíma sem aðalþjálfari liðsins. Hann er samningsbundinn AIK til 2022.

AIK er eitt af stærstu knattspyrnufélögum á Norðurlöndum og varð sænskur meistari í karlaflokki í tólfta skipti árið 2018. Liðið olli vonbrigðum á tímabilinu sem var að ljúka í Svíþjóð og mátti láta sér nægja níunda sætið. Bartosz Grzelak, aðstoðarþjálfari AIK undanfarin þrjú ár, tók við sem aðalþjálfari af Rikard Norling í lok júlí.

„Það kemur mér ekkert á óvart að J-Södra hafi áhuga á Patric. Þjálfarar sem starfa hjá AIK eru vanir góðum vinnubrögðum og eru alltaf eftirsóttir. Ég er mjög ánægður í mínu starfi hjá AIK og vonast til þess að geta verið hérna í mörg ár í viðbót. Hvort ég verði þá inni í þjálfarateyminu eða í einhverju öðru hlutverki verður bara að koma í ljós og er undir öðrum komið,“ sagði Magni við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert