Nítján stiga forysta á toppnum - 50 ár frá stórslysinu

Steven Gerrard.
Steven Gerrard. AFP

Rangers vann 1:0-heimasigur á erkifjendum sínum í Celtic í skosku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og er þar með 19 stiga forystu á fjendur sína sem hafa orðið Skotlandsmeistarar síðustu níu ár.

Gestirnir misstu mann af velli með rautt spjald eftir rúmlega klukkutímaleik þegar Nir Bitton braut á Alfredo Morelos er sóknarmaðurinn var að sleppa einn í gegn. Aðeins átta mínútum síðar varð svo vont verra fyrir gestina er fyrirliðinn Callum McGregor skoraði sjálfsmark, fékk boltann í öxlina og þaðan í markið.

Steven Gerr­ard, fyrr­ver­andi fyr­irliði enska knatt­spyrnuliðsins Li­verpool, er að gera góða hluti með Ran­gers en liðið hefur unnið 20 af 22 leikjum í skosku deildinni í vetur og enn ekki tapað leik. Þá er liðið búið að vinna þrjá leiki í röð gegn Celtic sem á þrjá leiki til góða á toppliðið.

Leikurinn í dag fór fram í skugga stórslyssins sem átti sér stað í viðureign félaganna á Ibrox-leikvanginum hjá Rangers fyrir nákvæmlega 50 árum, 2. janúar árið 1971. Þá létust 66 áhorfendur þegar stigagangur hrundi er þeir voru á leið af vellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert