Tækifæri í Frakklandi sem ekki var hægt að hafna

Svava Rós Guðmundsdóttir skrifaði undir átján mánaða samning í Frakklandi.
Svava Rós Guðmundsdóttir skrifaði undir átján mánaða samning í Frakklandi. Ljósmynd/Bordeaux

Svava Rós Guðmundsdóttir er tilbúin í næstu áskorun á sínum knattspyrnuferli en hún skrifaði undir átján mánaða samning við Bordeaux í frönsku 1. deildinni á mánudaginn síðasta.

Sóknarkonan, sem er 25 ára gömul, kemur til franska félagsins frá Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún hefur leikið frá 2019 en samningur hennar í Svíþjóð rann út um áramótin.

Bordeaux er þriðja besta lið Frakklands þessa dagana en liðið er í þriðja sæti frönsku 1. deildarinnar með 23 stig, 7 stigum minna en Frakklands- og Evrópumeistarar Lyon sem er í öðru sæti deildarinnar, og 8 stigum minna en topplið PSG.

„Ég er ótrúlega glöð að þetta sé loksins komið á hreint,“ sagði Svava Rós í samtali við Morgunblaðið.

„Það er eitthvað síðan ég tók ákvörðun um að ganga til liðs við Bordeaux. Þeir vildu hins vegar gera þetta á formlegan hátt og ég skrifaði þess vegna ekki undir samning við félagið fyrr en í gær [fyrradag] þegar ég var mætt til Frakklands. Það var gott að koma þessu frá og núna get ég farið að einbeita mér að fótboltanum á nýjan leik.

Það voru nokkur lið sem sýndu mér áhuga en eftir að hafa rætt við þjálfara Bordeaux, Pedro Martínez, var ég nokkuð viss um hvað ég vildi gera. Franska 1. deildin er hrikalega sterk og tvö efstu liðin hérna eru á meðal þeirra bestu í heiminum í dag. Bordeaux er aðeins á eftir þeim eins og staðan er í dag en samt sem áður er bilið alltaf að minnka.

Þegar allt kom til alls leist mér virkilega vel á allt í kringum félagið, hvernig þjálfararnir lögðu hlutina upp og hvaða hugmyndir þeir höfðu um framtíð klúbbsins,“ bætti Svava við.

Skynsamlegar ákvarðanir

Svava hélt út í atvinnumennsku árið 2018 þegar hún gekk til liðs við Röa í Noregi en þar sló hún rækilega í gegn áður en hún samdi við Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni.

„Ég pæli virkilega vel í öllu því sem ég geri og tek mér fyrir hendur. Ég hef því verið lítið í því að taka alltaf það fyrsta sem býðst sem dæmi og kýla bara á það. Eins þá þurfa ákveðnir hlutir að vera á hreinu og ég hef reynt að kynna mér þjálfara þeirra liða sem ég er að fara að spila með nokkuð vel áður en ég skrifa undir samning.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert