Barcelona skuldum vafið

Barcelona er í miklum fjárhagsvandræðum.
Barcelona er í miklum fjárhagsvandræðum. AFP

Íþróttafélagið Barcelona er skuldum vafið þessa dagana en kórónuveirufaraldurinn hefur reynst félaginu afar erfiður.

La Vanguardia greinir frá því að félagið skuldi 420 milljónir evra sem eru á eindaga á árinu en takist félaginu ekki að greiða þessar skuldir á það á hættu að verða gjaldþrota.

Þá eru heildarskuldir félagsins í kringum 900 milljónir evra eftir því sem La Vanguardia kemst næst en leikmenn félagsins í öllum greinum tóku á sig mikla launalækkun í vetur.

Það reyndist hins vegar skammtímalausn en samkvæmt tekjuáætlun Barcelona hafði félagið gert ráð fyrir því að geta hleypt áhorfendum sínum aftur á völlinn í desember.

Þá var stefnan sett á að allir vellir félagsins yrðu orðnir þéttsetnir í febrúar á þessu ári en eins og staðan er í dag er ekkert sem bendir til þess að það muni ganga eftir vegna kórónuveirunnar.

Barcelona heldur því áfram að safna skuldum þessa dagana og þá hefur gengi félagsins á tímabilinu í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu ekki verið til þess að hrópa yfir til þess að bæta gráu ofan á svart.

mbl.is