Barnfóstran réði úrslitum um félagaskiptin

Guðbjörg Gunnarsdóttir og Mia Jalkerud með tvíburana Oliviu og William …
Guðbjörg Gunnarsdóttir og Mia Jalkerud með tvíburana Oliviu og William á æfingasvæði Djurgården í Stokkhólmi. Ljósmynd/úr einkasafni

Mia Jalkerud, sambýliskona Guðbjargar Gunnarsdóttur landsliðsmarkvarðar í knattspyrnu, segir að sænska félagið Djurgården hafi ekki viljað útvega þeim barnfóstru og það hafi verið aðalástæða þess að leiðir skildi og þær sömdu í staðinn við norska félagið Arna-Björnar.

Jalkerud sagði þetta í viðtali við sænska sjónvarpið, SVT, og þar kemur fram að norska félagið greiði laun fyrir barnfóstru sem gæti tæplega ársgamalla tvíbura sem þær eiga á meðan æfingar og leikir standa yfir.

„Þeir eiga allan heiður skilinn fyrir að hafa leyst það mál fyrir okkur, það er mjög magnað, og ég vona að við getum launað fyrir okkur,“ sagði Jalkerud við SVT og gagnrýndi um leið Djurgården, félagið sem þær hafa báðar leikið með um langt árabil.

Djurgården gat ekki komið til móts við okkur

„Það er ennþá vandamál fyrir konur í fótbolta að eiga börn. Í okkar tilviki er málið enn flóknara þar sem við viljum báðar spila en viðkomandi félag vill kannski bara aðra okkar. En enginn hér í Stokkhólmi vildi semja á þessum nótum. Við höfum aldrei verið á neinum milljónalaunum en þurftum á þessu að halda til að hlutirnir gengju upp. Djurgården gat ekki komið til móts við okkur,“ sagði Jalkerud ennfremur.

Guðbjörg var í viðtali í Morgunblaðinu í síðustu viku vegna félagaskiptanna og sagði þar: „Félagið vildi allt fyrir okkur gera og er fyrsta félagið sem ég hef komist í samband við sem er svo opið og skilningsríkt yfir því að við eigum tvö lítil börn sem fylgja með. Við fáum mikla hjálp með tvíburana þannig að ég sé fram á að geta einbeitt mér miklu betur að fótboltanum en ég hefði getað hjá Djurgården.

Vildu bara halda Guðbjörgu

Fotbollskanalen fjallar um málið í dag og segir að hluti af vandamálinu hafi verið að þjálfari Djurgården, Pierre Fondin, hefði bara viljað halda Guðbjörgu en ekki Jalkerud, sem lék ekkert með liðinu á árinu 2020 þar sem samningar um það náðust ekki.

„Öll félög eru með sínar áætlanir í leikmannamálum og okkar áætlanir og þeirra pössuðu ekki saman. Þar með skildi leiðir í fullri vináttu,“ segir Jean Balawo íþróttastjóri Djurgården við Fotbollskanalen.

Spurður hve stóran þátt barnagæslan hefði átt í því að leiðir skildi sagði Balawo: „Ég get ekki farið út í smáatriði en við áttum góðar viðræður og niðurstaðan varð þessi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert