Albert fékk langþráð tækifæri

Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ Alkmaar í kvöld í …
Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ Alkmaar í kvöld í fyrsta sinn í rúman mánuð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Albert Guðmundsson sneri aftur í byrjunarlið AZ Alkmaar þegar liðið heimsótti PSV Eindhoven í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Philips-völlinn í Eindhoven í kvöld.

Leiknum lauk með 3:1-sigri AZ Alkmaar en Teun Koopmeiners skoraði tvívegis fyrir AZ Alkmaar í fyrri hálfleik.

Philip Max minnkaði muninn fyrir PSV á 59. mínútu áður en Calvin Stengs innsiglaði sigur AZ Alkmaar í uppbótartíma.

Albert lék allan leikinn á hægri kantinum hjá AZ Alkmaar en þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Alberts síðan 10. desember.

Landsliðsmaðurinn lék þá í 71. mínútu gegn Rijeka á útivelli í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Rétt fyrir jól greindu hollenskir fjölmiðlar frá því að Albert hefði verið settur í agabann af Pascal Janse, tímabundnum stjóra liðsins, og var hann látinn æfa með varaliðinu í nokkra daga.

Hann var ónotaður varamaður í síðustu tveimur leikjum AZ Alkmaar en Jansen virðist vera búinn að grafa stríðsöxina og gaf Alberti tækifæri í kvöld.

AZ Alkmaar er í fimmta sæti deildarinnar með 28 stig, 7 stigum minna en topplið Ajax, en Albert hefur byrjað sjö leiki í hollensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

mbl.is