Barcelona vildi ekki fá Ronaldo

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hefðu getað orðið samherjar hjá …
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hefðu getað orðið samherjar hjá Barcelona. AFP

Barcelona hafnaði tækifæri sem félagið fékk til að fá portúgölsku knattspyrnustjörnuna Cristiano Ronaldo í sínar raðir þegar hann var átján ára gamall.

Þar með hefðu hann og Lionel Messi orðið liðsfélagar en Messi var á þeim tíma sextán ára og var að byrja að spila með aðalliði Barcelona. Í staðinn var Ronaldo seldur til Manchester United og varð síðar einn af erkifjendum Börsunga með Real Madrid um árabil.

Joan Laporta, fyrrverandi forseti Barcelona, skýrði frá þessu í viðtali við Iniestazo og sagði að félaginu hefði verið boðið að kaupa Ronaldo af Sporting Lissabon fyrir tæpar 17 milljónir evra en því hefði verið hafnað þar sem Ronaldinho hefði þegar verið kominn til félagsins. Hann var keyptur sama ár af París SG fyrir 30 milljón evrur.

„Cristiano var frekar kantmaður en framherji. Við töldum okkur þegar vera komnir með góðan mann í þá stöðu svo við höfnuðum honum og ég sé ekkert eftir því," sagði Laporta.

mbl.is