Ari eini landsliðsmaðurinn sem spilaði heilan leik

Ari Freyr Skúlason í landsleik í haust.
Ari Freyr Skúlason í landsleik í haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ari Freyr Skúlason var eini íslenski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem lék allar 90 mínúturnar með félagsliði sínu í Evrópufótboltanum í gær.

Ari og félagar í Oostende héldu áfram sínu góða gengi í belgísku A-deildinni með því að sigra Kortrijk, 2:1. Ari lék í sinni gömlu stöðu á miðjunni hjá Oostende sem hefur nú klifrað upp í fimmta sæti deildarinnar með 32 stig úr 21 leik og fór upp fyrir gamla stórveldið Anderlecht með sigrinum í gær. Ari hefur leikið þrettán af leikjum liðsins í deildinni í vetur.

Alfreð Finnbogason kom á ný inn í byrjunarlið Augsburg eftir að hafa misst af tveimur leikjum í þýsku 1. deildinni. Lið hans tapaði 2:0 fyrir Werder Bremen á útivelli og Alfreð var skipt af velli á 58. mínútu. Augsburg er í ellefta sæti með 19 stig úr 16 leikjum en Alfreð hefur aðeins náð að spila tíu af þessum leikjum og þrjá þá í byrjunarliðinu.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley annan leikinn í röð en var tekinn út af í hálfleik í 1:0 ósigri gegn West Ham í London í ensku úrvalsdeildinni. Þetta var aðeins sjötti leikur Jóhanns í deildinni á tímabilinu en hann hefur misst mikið úr vegna meiðsla. Burnley er í 17. sæti með 16 stig úr 17 leikjum, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

Jón Daði Böðvarsson kom inn á sem varamaður á 80. mínútu þegar lið hans Millwall tapaði 3:1 fyrir Nottingham Forest á útivelli í ensku B-deildinni. Millwall er í 16. sæti með 26 stig eftir 23 leiki. Jón Daði hefur leikið átján af þessum leikjum.

Albert Guðmundsson lék fyrstu 63 mínúturnar með AZ Alkmaar þegar liðið vann Den Haag, 2:1, í hollensku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Albert hefur þar með byrjað tvo leiki í röð eftir að hafa lent í útistöðum við þjálfarann og verið settur í kælingu í nokkra leiki. Albert hefur nú leikið níu af 17 leikjum AZ í deildinni í vetur en liðið er í fimmta sæti með 34 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Ajax.

Andri Fannar Baldursson var allan tímann á varamannabekk Bologna sem vann Hellas Verona 1:0 í ítölsku A-deildinni. Bologna er í 12. sæti deildarinnar með 20 stig úr 18 leikjum. Andri hefur komið við sögu í fjórum af þessum leikjum, einu sinni í byrjunarliðinu.

Birkir Bjarnason kom ekkert við sögu þegar lið hans, Brescia, tapaði 1:0 fyrir Pisa á útivelli í ítölsku B-deildinni. Birkir hafði spilað síðustu sjö leiki liðsins en sat nú á bekknum allan tímann. Brescia er í 12. sæti deildarinnar með 21 stig eftir 18 leiki.

Hólmbert Aron Friðjónsson fékk hins vegar sínar fyrstu mínútur í búningi Brescia og spilaði sinn fyrsta leik síðan hann meiddist í leik með Aalesund í Noregi um miðjan september. Hólmbert kom inn á á 80. mínútu leiksins við Pisa.

Í sömu deild kom Bjarki Steinn Bjarkason inn á sem varamaður á 78. mínútu hjá Venezia í 2:0 ósigri gegn Pordenone en Óttar Magnús Karlsson sat á varamannabekk liðsins allan tímann. Venezia (Feneyjar) er í 10. sæti deildarinnar með 25 stig eftir 18 leiki. Bjarki og Óttar hafa komið við sögu í sex leikjum hvor.

Daníel Leó Grétarsson gat ekki leikið með Blackpool vegna meiðsla þegar lið hans gerði 1:1 jafntefli við Hull í ensku C-deildinni. Daníel hefur nú misst af fjórum leikjum í röð í deildinni en lék þó bikarleik gegn WBA í vikunni. Blackpool er í 14. sæti í deildinni með 28 stig úr 21 leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert