Messi sá rautt í tapi Barcelona

Leikmenn Athletic Bilbao fagna sigrinum í kvöld.
Leikmenn Athletic Bilbao fagna sigrinum í kvöld. AFP

Athletic Bilbao tryggði sér í kvöld sigur í meistarabikar Spánar í fótbolta eftir 3:2-sigur á Barcelona í framlengdum úrslitaleik í Sevilla. 

Antoine Griezmann kom Barcelona yfir á 40. mínútu en aðeins tveimur mínútum síða jafnaði Óscar de Marcos og var staðan í leikhléi 1:1. 

Griezmann var aftur á ferðinni á 77. mínútu er hann kom Barcelona aftur yfir en í þetta skiptið jafnaði Asier Villalibre á 90. mínútu og tryggði Bilbao framlengingu. 

Strax á þriðju mínútu framlengingarinnar kom Inaki Williams Bilbao í 3:2 og reyndist það sigurmarkið.

Mótlætið fór illa í Lionel Messi, einn allra besta leikmann heims, því hann fékk beint rautt spjald í uppbótartíma framlengingarinnar fyrir að slá frá sér þegar boltinn var hvergi nærri. 

Messi gengur svekktur af velli eftir rauða spjaldið.
Messi gengur svekktur af velli eftir rauða spjaldið. AFP
mbl.is