Leikmenn völdu Glódísi í lið ársins

Glódís Perla Viggósdóttir í leik með landsliðinu gegn Svíþjóð í …
Glódís Perla Viggósdóttir í leik með landsliðinu gegn Svíþjóð í september á síðasta ári. mbl.isEggert Jóhannesson

Landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir var útnefnd í liði ársins í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á dögunum í kjöri leikmanna deildarinnar.

Glódís er samningsbundin Rosengård en liðið hafnaði í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð með sjö stigum minna en topplið Göteborg.

Varnarkonan öfluga hefur leikið í Svíþjóð frá árinu 2015 en fyrstu þrjú tímabil sín lék hún með Eskilstuna áður en hún samdi við Rosengård.

Hún hefur stimplað sig inn sem einn af betri varnarmönnum deildarinnar og var meðal annars tilnefnd sem besti varnarmaður ársins á lokahófi deildarinnar síðasta haust.

Glódís er einungis 25 ára gömul en hún á að baki 89 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert