Verð alltaf stuðningsmaður FCK

Ragnar Sigurðsson er farinn frá FCK.
Ragnar Sigurðsson er farinn frá FCK. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson kvaddi FC Kaupmannahöfn og stuðningsmenn danska félagsins á samfélagsmiðlinum Twitter í dag.

Miðvörðurinn, sem er 34 ára gamall, er að ganga til liðs við úkraínska knattspyrnufélagið Lviv í efstu deild Úkraínu en það voru danskir fjölmiðlar sem greindu frá þessu í morgun.

Ragnar gekk til liðs við félagið á nýjan leik í janúar 2020 en hann er í guðatölu hjá stuðningsmönnum félagsins eftir að hafa spilað með liðinu frá 2011 til ársins 2014.

„Endurkoman gekk ekki eins og ég hefði viljað,“ sagði Ragnar í kveðju til stuðningsmanna félagsins.

„Ég mun ekki spila aftur fyrir FCK á mínum ferli en ég verð alltaf stuðningsmaður FCK,“ bætti Ragnar meðal annars við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert