Alfreð skaut í stöng og Bayern slapp með skrekkinn

Alfreð Finnbogason sendir Manuel Neuer, besta markvörð heims, í vitlaust …
Alfreð Finnbogason sendir Manuel Neuer, besta markvörð heims, í vitlaust horn en skýtur svo í stöng úr vítaspyrnunni í kvöld. AFP

Evrópumeistarar Bayern München sluppu með skrekkinn í kvöld þegar þeir sóttu Alfreð Finnbogason og félaga heim til Augsburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu.

Robert Lewandowski skoraði fyrir Bayern úr vítaspyrnu snemma leiks. Þegar tuttugu mínútur voru liðnar kom Alfreð inn á sem varamaður hjá Augsburg og fjórum mínútum síðar fékk heimaliðið vítaspyrnu. Alfreð fór á vítapunktinn en skaut í stöng.

Augsburg sótti mjög á lokakafla leiksins en Bæjarar náðu að verjast og knýja fram nauman 1:0 sigur. Þeir eru þar með áfram fjórum stigum á undan RB Leipzig á toppi deildarinnar þegar hún er nákvæmlega hálfnuð, eru með 39 stig gegn 35 hjá Leipzig og 32 hjá Leverkusen. Leipzig vann Union Berlín 1:0 í kvöld með marki frá Emil Forsberg.

Augsburg er í tólfta sæti af átján liðum með 19 stig, fjórum stigum fyrir ofan umspilssæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert