Ronaldo líklega orðinn markahæstur

Cristiano Ronaldo fagnar markinu í kvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar markinu í kvöld. AFP

Cristiano Ronaldo er líklega orðinn markahæsti knattspyrnumaður heims með félagsliði og landsliði eftir að hann skoraði fyrra mark Juventus gegn Napoli í 2:0 sigri í kvöld.

Þetta var leikurinn um meistarabikar Ítalíu sem ekki var hægt að koma fyrir á hefðbundnum stað í byrjun  tímabilsins í haust.

Ronaldo skoraði þarna sitt 760. mark en hann hefur gert 658 mörk í mótsleikjum fyrir Sporting Lissabon, Manchester United, Real Madrid og Juventus og 102 mörk fyrir portúgalska landsliðið.

Hann fór fram úr Josef Bican sem skoraði 759 mörk fyrir félagslið sín í Tékkóslóvakíu og Austurríki, og fyrir landslið beggja þjóða, á árunum 1931 til 1955.

Þá hefur Pelé frá Brasilíu verið skráður með 757 mörk fyrir Santos, New York Cosmos og brasilíska landsliðið en brasilíska félagið Santos heldur því fram að mörk hans fyrir það séu mun fleiri en skráð hafi verið annars staðar.

Næstir á markalistanum eru síðan Romario með 743 mörk, Lionel Messi með 719 og Puskás sem skoraði 705 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert