Markmaðurinn skoraði en Suárez réð úrslitum

Marko Dmitrovic markvörður Eibar skorar úr vítaspyrnunni gegn Atlético í …
Marko Dmitrovic markvörður Eibar skorar úr vítaspyrnunni gegn Atlético í kvöld. AFP

Luiz Suárez stal senunni af Marko Dmitrovic markverði Eibar með því að skora hjá honum sigurmark á síðustu stundu og tryggja Atlético Madrid nauman útisigur, 2:1, í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Dmitrovic fór sjálfur á vítapunktinn snemma leiks þegar Eibar fékk vítaspyrnu og skoraði úr henni. Hann varð þar með fyrsti markvörðurinn til að skora mark í deildinni í nítján ár.

Suárez jafnaði metin, 1:1, rétt fyrir hlé og staðan var þannig fram á lokamínúturnar. Þá krækti Suárez í vítaspyrnu og skoraði sjálfur úr henni hjá Dmitrovic.

Atlético styrkti enn frekar stöðu sína á toppi deildarinnar og er nú með 44 stig og á auk þess leik til góða á Real Madrid sem er með 37 stig og Barcelona sem er með 34 stig.

Luis Suárez skorar annað marka sinna í leiknum í kvöld.
Luis Suárez skorar annað marka sinna í leiknum í kvöld. AFP
mbl.is