Settir í bann ef þeir spila í evrópskri úrvalsdeild

Barcelona er eitt þeirra liða sem nefnt er til sögunnar …
Barcelona er eitt þeirra liða sem nefnt er til sögunnar í mögulegri úrvalsdeild Evrópu. AFP

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, tilkynnti í dag að leikmenn sem tækju þátt í nýrri evrópskri úrvalsdeild í fótbolta yrðu útilokaðir frá keppni á vegum sambandsins.

Vangaveltur hafa verið uppi um að fjársterkustu félög Evrópu myndu draga sig út úr mótum á vegum UEFA og stofna sérstaka evrópska úrvalsdeild. Josep Maria Bartoumeu, sem sagði af sér sem forseti Barcelona seint á síðasta ári, sagði á þeim tíma að Barcelona hefði fengið tilboð um að taka þátt í slíkri keppni.

Í yfirlýsingu FIFA sem gefin var út í dag segir að vegna vangaveltna fjölmiðla undanfarið um mögulega stofnun evrópskrar úrvalsdeildar, vilji FIFA ásamt aðildarsamböndum sínum í heimsálfunum sex ítreka fyrri áherslur um að slík keppni yrði aldrei samþykkt af FIFA eða aðildarsamböndum þess.

„Hvert það félag eða leikmaður sem tekur þátt í slíkri keppni fengi í framhaldi af því ekki að taka þátt í neinni keppni á vegum FIFA eða aðildarsambandanna," segir í yfirlýsingunni.

Félögin sem hafa verið orðuð við evrópsku deildina eru frá Englandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni. Auk Barcelona eru Liverpool og Manchester United nefnd til sögunnar sem félög sem leitað hafi verið til um þátttöku.

FIFA ætlar sjálft að stækka heimsmeistaramót félagsliða á næstu árum. Á næsta móti, sem fram fer í Katar á þessu ári, verða sex lið en stefnan er að þátttökulið á mótinu verði 24 frá sex heimálfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert