Tékkar véfengja metið hjá Ronaldo

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu fyrir Juventus í gærkvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu fyrir Juventus í gærkvöld. AFP

Tékkneska knattspyrnusambandið hefur mótmælt fréttum um að Cristiano Ronaldo sé orðinn markahæsti leikmaður heims hvað varðar mörk fyrir félagslið og landslið.

Ronaldo skoraði sitt 760. mark á ferlinum í gærkvöld þegar Juventus vann Napoli 2:0 í meistarakeppni Ítalíu. Þar með var hann sagður hafa farið framúr hinum tékkneska Josef Bican sem hefði skorað 759 mörk fyrir félagslið sín og landslið Tékkóslóvakíu og Austurríkis á árunum 1931 til 1955.

Nú hefur tékkneska sambandið staðhæft að Ronaldo eigi enn langt í land með að ná metinu af Bican því sá síðarnefndi hafi skorað 821 mark í opinberum mótsleikjum á ferlinum.

Sama var uppi á teningunum fyrir skömmu þegar Ronaldo var sagður hafa farið upp fyrir Pelé og í annað sætið á markalistanum en Pelé hefur verið skráður með 757 mörk fyrir félagslið og landslið. Félag hans í Brasilíu, Santos, mótmælti því harðlega og segir að Pelé hafi skorað 1.091 mark fyrir félagið á sínum tíma. Til viðbótar því er Pelé skráður með 77 mörk fyrir landslið Brasilíu og 37 mörk fyrir New York Cosmos í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert