Verður „EM alls staðar“ haldið í einni borg?

Lokakeppni EM 2020 átti að fara fram síðasta sumar en …
Lokakeppni EM 2020 átti að fara fram síðasta sumar en var frestað um eitt ár. AFP

Úrslitakeppni Evrópumóts karla í fótbolta á að fara fram í tólf borgum víðsvegar um Evrópu í sumar, en nú eru komnar upp vangaveltur um að einfalda mótshaldið og halda mótið jafnvel allt á einum stað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Karl-Heinz Rummenigge, framkvæmdastjóri Evrópumeistara Bayern München, sagði við þýska dagblaðið Münchener Merkur/TZ í dag að tólf borga áætlunin hefði verið gerð löngu fyrir daga kórónuveirunnar, með það að markmiði að fótboltinn yrði í forgrunni um alla Evrópu.

„En ég veit að Aleksander Ceferin forseti UEFA, sem er gríðarlega varkár þegar kemur að kórónuveirunni, er að velta því fyrir sér hvort það sé ekki réttara á þessum tímum að leika allt mótið í sama landinu," sagði Rummenigge.

Dominique Blanc, forseti svissneska knattspyrnusambandsins, tekur í sama streng í viðtali við svissneska blaðið 24 Heures. „Einn möguleikinn er sá að halda Evrópumótið í einu landi, til dæmis í Rússlandi eða Þýskalandi. Annar er að velja borg sem er með nægilega marga leikvanga til að hýsa alla sex riðlana. London kæmi til dæmis til greina," sagði Blanc.

Reiknað er með endanlegri ákvörðun hjá UEFA í marsmánuði en EM á að fara fram í London, Glasgow, Dublin, Bilbao, Amsterdam, Kaupmannahöfn, München, Pétursborg, Búkarest, Búdapest, Bakú og Róm. Undanúrslitaleikirnir og úrslitaleikurinn eiga að fara fram á Wembley-leikvanginum í London.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert