Mbappé hugleiðir málið gaumgæfilega

Kylian Mbappé fagnar einu af tveimur mörkum sínum í gær.
Kylian Mbappé fagnar einu af tveimur mörkum sínum í gær. AFP

Knattspyrnustjarnan Kylian Mbappé hefur verið mikið í umræðunni í franski sóknarmaðurinn er samningsbundinn PSG til næsta árs. Félagið vill framlengja samninginn hans en Mbappé sjálfur segist vera að hugsa málin.

Spænska stórliðið Real Madríd er sagt vinna í því að kaupa framherjann næsta sumar og hefur stórveldið sett af stað áætlun um að safna í sjóð fyrir sóknarmanninn öfluga samkvæmt spænska miðlinum Diario AS.

Mbappé gekk til liðs við PSG árið 2017 og hefur skorað 104 í 146 leikjum fyrir frönsku meistarana en hann er 22 ára gamall og þykir einn besti framherji heims. Hann skoraði tvö mörk í 4:0-sigri PSG á Montpellier í gærkvöldi og kvaðst ánægður hjá liðinu í samtali við Telefoot eftir leikinn.

„Ég er mjög ánægður hérna og hef alltaf verið það. Við erum að ræða saman, ég og félagið, og ég þarf að hugleiða málið. Ég vil ekki skrifa undir nýjan samning ef ég vil svo róa á önnur mið eftir ár,“ sagði Mbappé sem virðist ekki alveg ákveðinn um framtíð sína.

mbl.is