Andlát: Jóhannes Eðvaldsson

Jóhannes Eðvaldsson í leik með Celtic.
Jóhannes Eðvaldsson í leik með Celtic. Ljósmynd/Celtic

Jóhannes Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði og atvinnumaður í knattspyrnu, er látinn, 70 ára að aldri.

Hann gerði garðinn frægan hjá skoska stórliðinu Celtic á árunum 1975 til 1980 og varð tvisvar skoskur meistari með liðinu. Jóhannes lék 188 leiki með Celtic og skoraði í þeim 36 mörk en hann naut mikilla vinsælda hjá stuðningsmönnum félagsins og gekk undir viðurnefninu „Big Shuggie“ meðal þeirra.

Bróðir hans var Atli Eðvaldsson sem einnig var lengi fyrirliði íslenska knattspyrnulandsliðsins en hann lést eftir baráttu við krabbamein árið 2019.

Jóhannes fæddist 3. september 1950 en hann hóf meistaraflokksferilinn með Val árið 1968 og lék 92 deildarleiki fyrir liðið á árunum 1968 til 1974 þar sem hann skoraði 28 mörk.

Þá lék hann með Cape Town City í Suður-Afríku og Holbæk í Danmörku en gekk til liðs við Celtic 1975 og spilaði með liðinu í fimm ár. Eftir það lék hann með Tulsa í Bandaríkjunum, Hannover í Þýskalandi og Motherwell í Skotlandi og lauk ferlinum sem spilandi þjálfari Þróttar í efstu deild.

Jóhannes lék 34 landsleiki fyrir Ísland, þar af 27 sem fyrirliði, og skoraði tvö mörk. Annað þeirra er eitt eftirminnilegasta mark í landsleikjasögu Íslands en það gerði hann með hjólhestaspyrnu í óvæntum 2:1 sigri á Austur-Þýskalandi í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í júnímánuði 1975.

mbl.is