Sjö stiga forysta eftir sjö sigra í röð

Leikmenn Atlético Madríd fagna í kvöld.
Leikmenn Atlético Madríd fagna í kvöld. AFP

Fátt virðist geta stöðvað topplið Atlético Madríd sem vann í kvöld sinn sjöunda sigur í röð í spænsku efstu deildinni í knattspyrnu, 3:1 gegn Valencia. Liðið er á toppi deildarinnar með 47 stig eftir 18 leiki, sjö stigum á undan nágrönnum sínum í Real Madríd og á þar að auki leik til góða.

Það voru að vísu gestirnir frá Valencia sem tóku forystuna snemma leiks með marki Uros Racic á 11. mínútu en Portúgalinn Joao Felix jafnaði metin rúmum tíu mínútum síðar og var staðan jöfn í hálfleik, 1:1.

Úrúgvæinn Luis Suárez kom heimamönnum í forystu á 54. mínútu með tólfta deildarmarki sínu fyrir liðið eftir að hann skipti úr Barcelona fyrir tímabilið. Ángel Correa bætti svo við marki á 72. mínútu og þar við sat. Barcelona vann 2:0-sigur á Elche fyrr í dag og er í þriðja sæti með 37 stig, þremur stigum frá Real og tíu á eftir Atlético.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert