Eriksen sló nágrannana úr leik - Zlatan rekinn af velli

Christian Eriksen fagnar sigurmarki sínu í uppbótartíma.
Christian Eriksen fagnar sigurmarki sínu í uppbótartíma. AFP

Daninn Christian Eriksen reyndist hetja Inter Mílanó þegar liðið tók á móti AC Milan í átta liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld.

Zlatan Ibrahimovic kom AC Milan yfir á 31. mínútu og AC Milan leiddi með einu marki í hálfleik, 1:0. Zlatan var síðan rekinn af vellli á 58. mínútu þegar hann fékk sitt annað gula spjald.

Romelu Lukaku jafnaði metin fyrir Inter með marki úr vítaspyrnu á 71. mínútu og það var svo Eriksen sem skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 88. mínútu.

Eriksen hefur ekki átt fast sæti í liði Inter á tímabilinu og markið því afar kærkomið fyrir hann en sóknarmaðurinn hefur verið orðaður við brottför frá félaginu undanfarnar vikur.

Inter mætir annaðhvort Juventus eða SPAL í undanúrslitum bikarkeppninnar en í hinu undanúrslitaeinvíginu mætast annaðhvort Atalanta eða Lazio og Napoli eða Spezia.

Leikirnir í undanúrslitunum fara fram 2. og 9. febrúar en leikið verður heima og heiman.

mbl.is