Fyrsti leikur landsliðsmannsins síðan í nóvember

Guðlaugur Victor Pálsson sneri aftur í lið Darmstadt í kvöld.
Guðlaugur Victor Pálsson sneri aftur í lið Darmstadt í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson lék sinn fyrsta leik fyrir þýska knattspyrnufélagið Darmstadt í tæpa þrjá mánuði þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Sandhausen í B-deildinni í Þýskalandi í kvöld.

Guðlaugur kom inn á sem varamaður á 89. mínútu og tókst að næla sér í gult spjald mínútu síðar en leiknum lauk með 2:1-sigri Darmstadt.

Marvin Mehlem reyndist hetja Darmstadt en hann skoraði bæði mörk liðsins eftir að Aleksandr Zhirov hafði komið Sandhausen yfir strax á 1. mínútu.

Guðlaugur missti móður sína seint á síðasta ári og hefur verið í leyfi frá félaginu en hann sneri aftur til æfinga hjá Darmstadt í síðustu viku. 

Liðinu hefur ekki gengið vel án íslenska landsliðsmannsins en þetta var fyrsti sigur Darmstadt í deildinni síðan 22. desember.

Guðlaugur lék síðast með Darmstadt gegn Paderborn 8. nóvember síðastliðinn en Darmstadt er með 21 stig í tólfta sæti deildarinnar, 6 stigum frá umspilssæti um fall úr deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert