Horfði fimmtán sinnum á myndbandið: Þetta ER Kolbeinn

Kolbeinn Sigþórsson er kominn til Gautaborgar.
Kolbeinn Sigþórsson er kominn til Gautaborgar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Per Bohman, íþróttafréttamaður á sænska blaðinu Aftonbladet, skrifar að samningur Gautaborgar við Kolbein Sigþórsson séu óvæntustu tíðindi vetrarins í sænska fótboltanum.

Kolbeinn var kynntur til sögunnar sem nýr leikmaður IFK Gautaborg í morgun en hann hefur leikið tvö undanfarin ár með AIK í Stokkhólmi þar sem hann náði sér aldrei á strik.

„Ég hef oft hitt hann. Ég veit nákvæmlega hvernig hann lítur út. En samt þurfti ég að horfa fimmtán sinnum á myndskeiðið áður en ég hrópaði: Fjandinn sjálfur, þetta ER Kolbeinn Sigþórsson," skrifar Bohman í upphafi pistils sem hann birti rétt í þessu á netútgáfu Aftonbladet en myndskeiðið má sjá hér fyrir neðan:

Pistill Bohmans er síðan sem hér segir í íslenskri þýðingu:

„Þetta eru óvæntustu kaup vetrarins. Þess vegna sat ég stjarfur og horfði á kynningarmyndband IFK Gautaborgar og áttaði mig ekki á því sem var í gangi.

Það er dálítið sorglegt að það skuli hafa verið skrifað svo neikvætt um Kolbein Sigþórsson og frammistöðu hans í sænsku úrvalsdeildinni, en þegar hreinn ruddaskapur er undanskilinn, hefur gagnrýnin að mestu átt rétt á sér. Stjarna íslenska landsliðsins náði ekki að sýna neitt hjá AIK. Á tveimur árum komst Kolbeinn aldrei nærri því formi sem hann og félagið höfðu vonast eftir.

Það var ekkert út á vinnusemi hans að setja. Þetta var ekki eins og Kolbeini væri sama. Íslendingurinn lagði gríðarlega hart að sér bæði á æfingum og í leikjum til að sýna sínar bestu hliðar. Stundum virkaði hann ágætlega sem líkamlega sterkur framherji. Það sem vantaði í leik hans voru vissulega stór atriði: sjálfstraust, hugrekki, sköpun, og einhvers konar drápseðli. Sem markaskorari var hann alltof sjaldan mættur á hættulegu svæðin í vítateignum. Það er erfitt að vera markaskorari ef þú kemst aldrei í færi. Öll þau meiðsli og veikindi sem hann gekk í gegnum fóru líka með feril hans hjá AIK.

Hann var greinilega í vafa um sjálfan sig. Þegar við fréttamennirnir töluðum við hann eftir leiki var Íslendingurinn alltaf kurteis en augnaráðið og svipurinn gáfu til kynna að þarna væri á ferð leikmaður sem liði mjög illa. Það er ekki auðvelt staða fyrir nokkurn mann. Ef þú veldur fólki vonbrigðum eða stendur ekki undir væntingum þá dregur það mikið úr sjálfstraustinu. Í hörðum og reiðum fótboltaheimi er enginn sem hjálpar þér.

Þess vegna brosti ég breitt yfir þessum algjörlega ótrúlegu fréttum. Ég hélt að við myndum aldrei nokkurn tíma sjá Kolbein Sigþórsson aftur á sænskum fótboltavelli. Það er eitthvað fallegt við það að þessi þrítugi leikmaður fái tækifæri til að sýna sig og sanna á ný. Í fullkomnum heimi myndi hann passa vel sem kraftmikill framherji inn í klassískan Gautaborgarfótbolta hjá Roland Nilsson. Samningurinn er aðeins til eins árs og Íslendingurinn verður væntanlega fyrst og fremst varamaður fyrir Robin Söder (og fyrir Marcus Berg þegar hann kemur).

En ég hef samt mínar efasemdir. Það yrði afar skemmtilegt ef Kolbeinn myndi slá á alla gagnrýni en ég hef ekki trú á því. Það er erfitt að horfa framhjá mörgum máttlitlum tilraunum hans í baráttunni hjá AIK. En sumir hafa enn mikla trú á Kolbeini. Heimildarmaður minn í röðum AIK, sem ég hélt að myndi gera grín að nýjasta liðsmanni Gautaborgar, tók þessum fréttum af miklum áhuga. Ef aðstæður yrðu réttar og umhverfið stöðugt, var hann viss um að Kolbeinn gæti reynst frábær liðsauki fyrir Gautaborg.

„Getur hann enn sprungið út?“ spurði ég.

„Ég er algjörlega fullviss um það,“ var svarið.

Við sjáum til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert