Skagastrákurinn skoraði fyrir FCK

Hákon Arnar Haraldsson þegar hann samdi við FC Köbenhavn
Hákon Arnar Haraldsson þegar hann samdi við FC Köbenhavn Ljósmynd/FCK

Hinn sautján ára gamli knattspyrnumaður Hákon Arnar Haraldsson fékk í dag tækifæri með aðalliði FC Köbenhavn og nýtti það afar vel.

Hákon var í 23 manna hópi aðalliðsins í æfingaleik gegn AGF í dag. Hann kom inn á  sem varamaður og skoraði sjötta og síðasta mark liðsins í stórsigri, 6:1, með því að lyfta boltanum snyrtilega yfir markvörð Árósaliðsins eftir að hafa fengið sendingu innfyrir vörnina.

Hákon kom til liðs við FCK frá ÍA sumarið 2019 og hefur leikið með U19 ára liði félagsins en er nú farinn að banka vel á dyrnar hjá aðalliðinu sem er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Hann hefur leikið 25 leiki með U17 ára landsliði Íslands og einn leik með 21-árs landsliðinu.

Knattspyrnuhæfileikana á Hákon ekki langt að sækja en foreldrar hans, Haraldur Ingólfsson og Jónína Víglundsdóttir, léku lengi með ÍA, spiluðu bæði með A-landsliðum Íslands, og Haraldur var atvinnumaður í Noregi og Svíþjóð hluta af ferlinum.

mbl.is