Íslenskur landsliðsmaður slóst á æfingu

Mikael Anderson á æfingu íslenska landsliðsins í september á síðasta …
Mikael Anderson á æfingu íslenska landsliðsins í september á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmaðurinn Mikael Anderson var ekki í leikmannahópi danska úrvalsdeildarfélagsins Midtjylland í gær þar sem hann var í agabanni.

Það er danski miðillinn Ekstrabladet sem greinir frá þessu en Midtjylland heimsótti Randers í dönsku úrvalsdeildinni í gær.

Samkvæmt frétt Ekstrabladet lenti Mikael og Sory Kaba, sóknarmanni Midtjylland, saman á æfingu liðsins í vikunni þar sem þeir létu hnefana tala.

Þeir voru báðir reknir heim af æfingu liðsins og ekki valdir í hópinn fyrir leikinn gegn Randers sem lauk með 2:1-sigri Midtjylland.

„Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um þetta mál og það eina sem ég mun segja er að þeir voru ekki valdir í hópinn í kvöld,“ sagði Brian Priske, þjálfari Midtjylland, í samtali við danska fjölmiðla.

„Ég vel þann leikmannahóp sem ég tel líklegastan til þess að ná í stig fyrir okkur og það tókst í kvöld. 

Það sem gerist innan félagsins er leyst innan félagsins og þannig hefur það alltaf verið,“ bætti þjálfarinn við.

Mikael hefur verið fastamaður í leikmannahópi Midtjylland á tímabilinu en hann er einungis 22 ára gamall. Hann á að baki sjö A-landsleiki fyrir Ísland.

mbl.is