Liverpool er í afar góðri stöðu eftir að Leipzig og Liverpool mættust í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.
Leikið var í Búdapest í Ungverjalandi vegna þess að Englendingar mega ekki ferðast til Þýskalands sökum heimsfaraldursins.
Liverpool vann 2:0 og er því í kjörstöðu þar sem liðið á heimaleikinn eftir í 16-liða úrslitunum.
Markalaust var að loknum fyrri hálfleik en snemma í síðari hálfleik fengu framherjar Liverpool tvö mörk á silfurfati frá Þjóðverjunum. Mo Salah skoraði á 53. mínútu og Sadio Mané fimm mínútum síðar.
Glæfraleg sending aftur á aftasta varnarmann Leipzig misheppnaðist illa. Salah fékk boltann fyrir vikið einn á móti markverði og skoraði af öryggi. Önnur mistök voru gerð í vörn Leipzig þegar lítið hætta var á ferðum og upp úr því kom síðara markið. Löng sending úr vörn Liverpool sem virðist sakleysisleg. Mukiele varnarmaður Leipzig átti alla möguleika á að ná boltanum en tókst það ekki. Fyrir vikið slapp Mané einn inn fyrir vörnina og skoraði af yfirvegun.