Við munum sakna Heimis

Heimis verður sárt saknað á hliðarlínunni á morgun.
Heimis verður sárt saknað á hliðarlínunni á morgun. Ljósmynd/Al-Arabi

„Við munum klárlega sakna Heimis en við höfum reynt að undirbúa okkur með sama hætti og áður,“ sagði Freyr Alexandersson á blaðamannafundi Al-Arabi í Katar í morgun en hann mun stýra liðinu á hliðarlínunni gegn Al-Sadd annað kvöld.

Freyr er aðstoðarþjálfari liðsins og Heimi Hallgrímssyni aðalþjálfara innan handar en Heimir, sem stýrði íslenska landsliðinu um árabil, er með kórónuveiruna og því fjarri góðu gamni. Vel hef­ur gengið hjá Heimi og læri­svein­um hans, liðið er tap­laust í síðustu átta leikj­um sín­um og sit­ur í 6. sæti í katörsku efstu deild­inni. Illa hefur hins vegar gengið geng Al-Sadd sem hefur unnið síðustu þrjár viðureignir liðanna og skorað fjögur mörk í tveimur þeirra.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir leikmennina til að sýna leiðtogahæfileika sína,“ bætti Freyr við en Al-Sadd og Al-Arabi mætast klukkan 16:15 að íslenskum tíma á morgun.

Freyr Alexandersson stýrir liði Al-Arabi á morgun.
Freyr Alexandersson stýrir liði Al-Arabi á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is