Fresta keppni í tveimur efstu deildum kvenna

Ingibjörg Sigurðardóttir er norskur meistari með Vålerenga sem átti að …
Ingibjörg Sigurðardóttir er norskur meistari með Vålerenga sem átti að mæta Avaldsnes í fyrstu umferðinni 21. mars. Ljósmynd/Vålerenga

Norska knattspyrnusambandið tilkynnti í dag að keppni í tveimur efstu deildum kvenna í fótboltanum þar í landi myndi ekki hefjast 20. mars eins og til stóð.

Sóttvarnareglur í Noregi eru mjög strangar vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu og æfingaleikir hafa ekki verið heimlaðir. Pål Bjerketvedt, framkvæmdastjóri norska knattspyrnusambandsins, segir að talið sé nauðsynlegt að liðin geti undirbúið sig fyrir mótið með æfingaleikjum í einn mánuð áður en keppni hefst og það sé haft til hliðsjónar í þessari ákvörðun. Reynt verði að finna nýjar dagsetningar fyrir mótið fyrir vikulokin.

Þrír Íslendingar spila í norsku úrvalsdeildinni um þessar mundir. Ingibjörg Sigurðardóttir er norskur meistari með Vålerenga sem hefur auk þess fengið hina 17 ára gömlu Amöndu Andradóttur til sín frá Nordsjælland í Danmörku. Þá er landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir komin til liðs við Arna-Björnar frá Bergen.

Keppni í úrvalsdeild karla í Noregi á ekki að hefjast fyrr en 5. apríl þannig að enn er svigrúm fyrir hendi áður en grípa þarf til samskonar frestana þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert