Besta augnablik ferilsins

Ragnar Sigurðsson fyrir leik Íslands og Englands á EM í …
Ragnar Sigurðsson fyrir leik Íslands og Englands á EM í Frakklandi í Nice 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lokaflautið gegn enska landsliðinu í sextán liða úrslitum EM 2016 í Nice í Frakklandi er besta augnablikið á ferli Ragnars Sigurðssonar, landsliðsmanns Íslands í knattspyrnu.

Þetta staðfesti hann í samtali við úkraínsku fjölmiðlakonuna Irynu Kozyupa á dögunum en Ragnar gekk til liðs við úkraínska úrvalsdeildarfélagið Rukh Lviv í janúar.

Miðvörðurinn, sem er 35 ára gamall, hélt út í atvinnumennsku árið 2006 frá uppeldisfélagi sínu Fylki en hann hefur leikið með Gautaborg, FC Kaupmannahöfn, Krasnodar, Fulham, Rubin Kazan og Rostov á atvinnumannaferli sínum.

Þá er hann næstleikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 97 landsleiki á bakinu en hann ræddi meðal annars gengi Íslands á EM í Frakklandi 2016 við Kozyupa.

„Okkar stærsta afrek var auðvitað bara að komast í lokakeppnina að mínu mati,“ sagði Ragnar.

„Við höfum allt að vinna í Frakklandi og engu að tapa. Spennustigið er hátt á svona móti og það geta allir unnið alla. Við stóðum okkur vel í riðlakeppninni, komumst áfram í útsláttarkeppnina þar sem við lögðum England að velli.

Það má alveg segja sem svo að þetta hafi verið hálfgerð öskubuskusaga því í raunveruleikanum átti þetta ekki að vera hægt. Ísland er 360.000 manna þjóð sem á ekki að geta unnið stórþjóð eins og England en við gerðum það. 

Við fengum mikið lof fyrir frammistöðu okkar á mótinu og í leikjunum en fólk sá aldrei hvað við lögðum mikið á okkur í aðdraganda mótsins á æfingasvæðinu og það var eitt stærsta afrekið,“ sagði Ragnar.

Ragnar Sigurðsson fagnar marki sínu gegn enska landsliðinu.
Ragnar Sigurðsson fagnar marki sínu gegn enska landsliðinu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekki minn besti leikur

Leiknum lauk með 2:1-sigri Íslands en Ragnar jafnaði metin fyrir íslenska liðið á 6. mínútu eftir að Wayne Rooney hafði komið Englandi yfir með marki úr vítaspyrnu á 4. mínútu.

„Markið gegn Englandi er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma því þetta var langt frá því að vera minn besti leikur á ferlinum. Ég hef spilað nokkra leiki þar sem ég hef nánast átt fullkominn leik og unnið öll mín einvígi en það var ekki tilfellið gegn Englandi.

Ég skoraði mark, var valinn maður leiksins og mörgum finnst þetta hafa verið minn besti leikur á ferlinum en ég er ekki sammála. Besta augnablik ferilsins kom svo í leikslok þegar dómarinn flautaði til leiksloka og við áttuðum okkur á því að við værum komnir í átta liða úrslit,“ bætti Ragnar við.

mbl.is