Ég hafði ekki minnstu hugmynd

Olivier Giroud fagnar sigurmarki Chelsea í kvöld.
Olivier Giroud fagnar sigurmarki Chelsea í kvöld. AFP

Olivier Giroud sagðist fyrst og fremst vera ánægður með að hafa hjálpað Chelsea til að vinna mikilvægan útisigur en gullfallegt mark hans tryggði enska liðinu útisigur gegn Atlético Madrid, 1:0, í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta í kvöld.

Frakkinn skoraði með hjólhestaspyrnu úr miðjum vítateig á 70. mínútu en markið var fyrst dæmt ógilt vegna meintrar rangstöðu. Eftir tveggja mínútna skoðun myndbandsdómara úrskurðuðu þeir að boltinn hefði borist til Girouds frá mótherja, ekki frá Mason Mount samherja hans eins og aðstoðardómarinn taldi, og þar með var markið oroðið löglegt.

„Ég veit ekki hvað skal segja um markið, ég einbeitti mér bara að því að hitta boltann í hjólhestaspyrnunni og var afar ánægður með að sjá hann fara í netið. Ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvort ég væri rangstæður en Mason Mount sagði að hann hefði aldrei snert boltann. Gott fyrir liðið og gott fyrir mig," sagði Giroud við BT Sport eftir lelikinn.

„Við vitum vel hversu dýrmætt það er að skora á útivelli í Evrópuleikjum og ég er því afar ánægður með að hafa hjálpað liðinu að vinna leikinn. Við höfum góða stjórn á leiknum og vorum fullir sjálfstrausts, en mættum frábæru liði. Við vorum afar einbeittir og vissum hverjir væru helstu styrkleikar þeirra. Við réðum við þá en nú þurfum við að halda einbeitingunni og ljúka verkinu á heimavelli," sagði franski framherjinn sem er orðinn næstmarkahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar í vetur með sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert