Hann var hér, þar og alls staðar

Jón Dagur Þorsteinsson hefur látið mikið að sér kveða í …
Jón Dagur Þorsteinsson hefur látið mikið að sér kveða í dönsku úrvalsdeildinni í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Dagur Þorsteinsson, fyrirliði 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, heldur áfram að gera það gott með danska úrvalsdeildarfélaginu AGF frá Árósum.

Hann hefur margoft verið sagður með bestu mönnum liðsins í dönskum fjölmiðlum á yfirstandandi keppnistímabili og Tipsbladet velur hann í úrvalslið sautjándu umferðarinnar þar sem AGF lagði SönderjyskE að velli á sunnudaginn, 2:0.

Í umsögn um Jón Dag segir blaðið: „Það er hægt að gagnrýna Jón Dag Þorsteinsson fyrir að skora ekki mark í leiknum við SönderjyskE, en að því slepptu er ekki annað hægt en að klappa fyrir Íslendingnum sem átti fimm skot á markið án þess að ná að skora hjá Lawrence Thomas. Hann var hér, þar og alls staðar, og ef skotnýtingin hefði verið betri hefði frammistaða AGF-leikmannsins verið nánast fullkomin."

AGF er í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar, á eftir Bröndby og Midtjylland. Jón Dagur hefur leikið alla 17 leikina til þessa og er næstmarkahæsti leikmaður liðsins með fimm mörk. Hann hefur lagt upp nokkur fyrir markahæsta mann liðsins, Patrick Mortensen, sem hefur hins vegar verið gagnrýndur nokkuð fyrir að nýta ekki öll þau færi sem íslenski kantmaðurinn búi til fyrir hann.

Uppfært kl. 13:30
Jón Dagur er einnig í úrvalsliði umferðarinnar hjá heimasíðu úrvalsdeildarinnar.

mbl.is